Viðskipti erlent

Samdráttur hjá Microsoft

Hagnaður bandaríska tölvurisans Microsoft á öðrum ársfjórðungi rekstrarársins, sem lauk í desember í fyrra, nam 2,63 milljörðum bandaríkjadala. Þetta jafngildir 184,36 milljörðum íslenskra króna á tímabilinu sem er 28 prósenta samdráttur á milli ára. Helsta ástæðan fyrir samdrættinum eru tafir á útgáfu Windows Vista, nýjasta stýrikerfi Microsoft.

Til samanburðar nam hagnaður Microsoft á öðrum ársfjórðungi ári fyrr 3,65 milljörðum bandaríkjadala, 255,86 milljörðum íslenskra króna.

Tekjur á tímabilinu jukust hins vegar á milli ára. Þær námu 12,54 milljörðum dala, 879,05 milljörðum íslenskra króna, en voru 11,8 milljarðar dala, sem jafngildir 827,18 milljörðum króna, ári fyrr.

Fyrirtækjaútgáfa Windows Vista kom út í lok nóvember í fyrra en gert er ráð fyrir að einstaklingsútgáfur stýrikerfisins komi á markað á þriðjudag í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×