Innlent

Landssamtök Landeigenda á Íslandi stofnuð

Stofnfundur Landssamtaka Landeigenda á Íslandi var haldin í Sunnusal Hótels Sögu í dag. Salurinn var fullur út úr dyrum og aðstandendur fundarins telja að skráðir stofnfélagar séu hátt í 300 talsins. Guðný Sverrisdóttir, sveitastjóri Grýtubakkahrepps, var kjörin formaður samtakanna.

Á fundinum var samþykkt ályktun er kveður á um að þjóðlendulögunum verði breytt strax á þá leið að jörð með athugasemdalausu þinglýstu landamerkjabréfi verði eignarland. Samtökin vilja einnig að afréttir verði ekki gerðar að þjóðlendum.

Aðalstjórn samtakanna skipa þau Guðný Sverrisdóttir, sem er jafnframt formaður sem fyrr segir, Ólafur H. Jónsson, Reykjavík, Örn Bergsson, Jóhannes Kristjánsson og Gunnar Sæmundsson.

Athygli vakti hve víða menn komu að. Stór rúta kom full af Skagfirðingum og Húnvetningar og Þingeyingar fjölmenntu. Talið er að þarna hafi verið fulltrúar úr flestum héruðum landsins, einstaklingar, sveitarfélög og lögaðilar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×