Viðskipti erlent

Vísitölur náðu methæðum í dag

Hlutabréfavísitölur náðu um tíma methæðum í fyrstu viðskiptum dagsins á helstu fjármálamörkuðum í Vestur-Evrópu í kjölfar birtingar afkomutalna fyrirtækja á síðasta fjórðungi liðins árs. Gengi þeirra ekki verið hærra í sex ár. Úrvalsvísitalan sló með í Kauphöll Íslands á mánudag þegar hún endaði í 6.930 stigum. Hún hefur dalað nokkuð síðan þá og endaði í gær í 6.885 stigum.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 0,2 prósentustig í dag og náði 1.530,9 stigum en vísitalan hefur ekki farið jafn hátt í sex ár. Hún dalaði nokkuð eftir því sem á leið og fór úr meðhæðum.

FTSE 100 vísitalan hækkaði sömuleiðis um 0,2 prósentustig og fór í 6.329,4 stig sem er hæsta gildi hennar síðan í janúar árið 2001.

Þýska DAX vísitalan hækkaði jafn mikið og hinar tvær auk þess sem CAC 40 vísitalan í Frakklandi hækkaði um 0,1 prósent og snerti lokagildi vísitölunnar sem hún stóð í um mitt ár 2001.

Gengi hlutabréfa hefur hækkað mest í þýska raftækjaframleiðandanum Siemens, eða um 4,2 prósent, og í fatakeðjunni H&M sem hækkaði um 5,1 prósent á mörkuðunum í dag.

Hagnaður H&M á fjórða ársfjórðungi 2006 nam 3,8 milljörðum sænskra króna, jafnvirði 37,7 milljarða íslenskra króna sem er 18 prósenta aukning á milli ára.

Hagnaður Siemens nam hins vegar 788 milljónum evra, jafnvirði 70,4 milljarða króna, á fjórðungnum en það er 16 prósenta samdráttur á milli ára. Sekt samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins dró afkomuna talsvert niður en fyrirtækið var sektað um 423 milljónir evra, 37,8 milljarða íslenskra króna, vegna brota á samkeppnisbrota og verðsamráðs ásamt öðrum fyrirtækjum í Evrópu í gær. Fyrirtækið heldur hluthafafund í dag og er reiknað með því að þar verði greint formlega frá því að fyrirtækið hyggist kaupa bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið UGS fyrir 3,5 milljarða bandaríkjadali, 240,5 milljarða íslenskra króna.

Þá er gert ráð fyrir því að hagnaður Siemens aukist um 4 prósent á yfirstandandi fjórðungi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×