Innlent

Ísland sagt til fyrirmyndar í skattamálum hótela og veitingastaða

Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. MYND/Stefán Karlsson

Samtök hótel- og veitingasamtaka innan Evrópusambandsríkjanna HOTREC héldu ráðstefnu á föstudaginn í Búdapest um virðisaukaskatt. Samtökin hafa síðastliðin 15 ár barist fyrir tilslökun af hálfu Evrópuráðsins þess efnis að gisting og veitingaþjónusta í aðildarlöndunum verði í lægra þrepi virðisaukaskatts.

Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, var boðið að halda fyrirlestur um þær breytingar sem verða hér á landi á virðisaukaskatti á gistingu og veitingaþjónustu 1. mars næstkomandi.

Erna var ein sjö aðila frá jafnmörgum löndum sem voru fengnir til að segja frá ástandinu í heimalandinu og kom fram í máli þeirra að víða er óánægja vegna samkeppnisstöðu veitingastaða gagnvart verslunum og öðrum fyrirtækjum sem selja tilbúinn mat úr húsi.

Erna var eini fyrirlesarinn frá landi utan ESB og vöktu fyrirhugaðar breytingar 1. mars mikla athygli og var fyrirlestri Ernu gefinn titillinn "The Excellent Scenario" eða Fyrirmyndarfyrirkomulag.

Þóttu aðgerðirnar á Íslandi efla samkeppnishæfni, jafna stöðu fyrirtækjanna, auk þess að vera öflug leið til að fækka undanskotum frá skattgreiðslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×