Viðskipti erlent

Samdráttur hjá Citigroup

Bandaríski bankinn Citigroup skilaði rúmlega 5,3 milljarða dala hagnaði á síðasta fjórðungi 2006. Þetta jafngildir 369,7 milljarða króna hagnaði á fjórðungnum sem er 26 prósenta samdráttur á milli ára. Hagnaður bankans á árinu í heild nam jafnvirði 1.660 milljörðum króna, sem er 12 prósentum minna en árið 2005.

Tekjur bankans á árinu námu 89,6 milljörðum dala eða 6.251 milljörðum íslenskra króna og hafa þær aldrei verið meiri.

Að sögn forsvarsmanna Citigroup hefði hagnaður bankans verið meiri hefði ekki verið fyrir hærri rekstrarkostnað hjá bankanum í Japan auk annarra kostnaðarliða á fjórðungnum.

Bankinn keypti stóra hluti í kínverska Guangdong þróunarbankanum og Grupo Cuscatlan bankanum í Mið-Ameríku í fyrra. Breska ríkisútvarpið hefur eftir Charles Prince, forstjóra bankans, að horft verði til frekari kaupa á fjármálafyrirtækjum á nýju ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×