Fótbolti

Capello biðst afsökunar á ósiðlegu athæfi

Capello sést hér veifa vísifingri sínum til leikmanna. Þetta var þó ekki fingurinn sem áhorfendurnir tveir á leiknum í gærkvöldi fengu að sjá.
Capello sést hér veifa vísifingri sínum til leikmanna. Þetta var þó ekki fingurinn sem áhorfendurnir tveir á leiknum í gærkvöldi fengu að sjá. MYND/Getty

Fabio Capello, stjóri Real Madrid, hefur beðist afsökunar á að hafa sýnt tveimur áhorfendum fingurinn í viðureign Real Madrid og Zaragoza í gærkvöldi. Capello hefur verið undir miklu álagi að undanförnu og svo virðist sem að það sé farið að sjá á sálinni á ítalska stjóranum.

"Ég vil biðjast afsökunar á því sem ég gerði. Sem þjálfari liðsins á ég ekki að láta svona sjást," sagði Capello í morgun, en spænsku blöðin voru uppfull af ljósmyndum sem sýndu gjörðir þjálfarans svo ekki verður deilt um sök hans. Capello segist hafa beint fingrinum að tveimur ákveðnum einstaklingum sem hefðu lagt hann í einelti frá því að hann stjórnaði Real Madrid fyrir 10 árum.

"Þessir tveir menn hafa móðgað mig í hvert einasta skipti sem ég hef mætt Zaragosa á þessum velli og í dag gengu þeir of langt. Þetta eru þeir sömu og ég þurfti að þola skítkast frá fyrir 10 árum síðan því ég þekki raddir þeirra," bætti sá ítalski við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×