Enski boltinn

Vopnahlé í herbúðum Chelsea

Jose Mourinho á í stríði við yfirmenn sína hjá Chelsea.
Jose Mourinho á í stríði við yfirmenn sína hjá Chelsea. MYND/Getty

Nokkur ensku dagblaðanna segja frá því í morgun að Jose Mourinho og æðstu stjórnarmenn Chelsea hafi komist að samkomulagi um vopnahlé - að minnsta kosti fram á sumar. Lausnin felst í því að gefa Mourinho einhvern pening til að kaupa varnarmann til liðsins í janúar.

Meint deila Jose Mourinho við Roman Abramovich, aðaleiganda Chelsea, og kollega hans í yfirstjórn félagsins hefur tröllriðið öllum fjölmiðlum ytra og margar samsæriskenningar heyrst í því sambandi. Í meginatriðum er talið að deilan snúist um þá staðreynd að Mourinho var neitað um að kaupa leikmenn til liðsins í janúar.

Samkvæmt einhverjum dagblaðanna í morgun hefur Mourinho nú fengið grænt ljós á að kaupa einn varnarmann - en alls ekki meira en það. Auk þess er skilyrði að Mourinho hætti að tjá sig um stöðuna og einbeiti sér að því að klára tímabilið með Chelsea. Framhaldið er síðan algjör óvissa.

Talið er að varnarmaður Bolton, Tal Ben Haim, sé efstur á óskalista Mourinho - miðað við þau takmörkuðu fjárráð sem hann fær við kaupin á nýjum varnarmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×