Fótbolti

Viðræður milli Real og LA Galaxy í fullum gangi

Þessi mynd var tekin á æfingu Real Madrid í morgun. Þar var Beckham mættur en hann átti engin samskipti við þjálfarann Fabio Capello á meðan henni stóð. Vel fór hins vegar á með Beckham og liðsfélögum hans.
Þessi mynd var tekin á æfingu Real Madrid í morgun. Þar var Beckham mættur en hann átti engin samskipti við þjálfarann Fabio Capello á meðan henni stóð. Vel fór hins vegar á með Beckham og liðsfélögum hans. MYND/AFP

Viðræður hafa staðið yfir í morgun og alla helgina á milli Real Madrid og LA Galaxy um að David Beckham fái að yfirgefa herbúðir spænska liðsins strax í þessari viku og ganga til liðs við bandaríska liðið.

Beckham skrifaði sem kunnugt er undir samning við LA Galaxy í síðustu viku og var fyrirhugað að hann færi til Bandaríkjanna í sumar. Eftir að Fabio Capello, stjóri Real, tilkynnti að Beckham fengi ekki að spila aftur fyrir lið sitt hafa málin þróast í óvænta átt og virðist vera gagnkvæmur vilji beggja félaga að ganga frá nýjum samningi hið fyrsta, sem felur í sér að Beckham fari frá Real strax í þessum mánuði.

“Mér skilst að lögfræðingar Beckham séu að vinna í samningi sem gerir leikmanninum kleift að fara strax til Los Angeles. LA Galaxy getur ekki greitt upphæðina sem þarf til að losa Beckham undan samningi, samkvæmt núgildandi samningi hans við Real Madrid, en verið er að reyna að finna lausn á málinu,” sagði Don Garber, einn af yfirmönnum bandarísku atvinnumannadeildarinnar í fótbolta.

“Við viljum fá Beckham eins fljótt og hægt er til landsins og forráðamenn Galaxy eru að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að láta það verða að veruleika. Beckham vill einnig koma strax og það er aðalmálið,” bætti Garber við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×