Fótbolti

Inter getur sett met með sigri á morgun

Zlatan Ibrahimovic og félagar í Inter Milan geta sett met með 12. sigrinum í röð á morgun
Zlatan Ibrahimovic og félagar í Inter Milan geta sett met með 12. sigrinum í röð á morgun NordicPhotos/GettyImages

Ítalíumeistarar Inter Milan geta sett nýtt met í ítölsku A-deildinni á morgun þegar keppni eftir hefst á ný þar í landi eftir vetrarfrí, en liðið vann sinn ellefta leik í röð í deildinni þegar það skellti Atalanta á síðasta keppnisdegi fyrir jólafrí. Liðið mætir Torino á morgun.

Það sem skiptir öllu meira máli er þó það að liðið hefur sjö stiga forskot á helstu keppinauta sína í Roma þegar keppni hefst á ný, en Roma mætir Messina á útivelli á morgun. Torino hefur ekki unnið Inter í þrettán ár, en liðið hefur reyndar ekki tapað í síðustu fimm leikjum sínum í deildinni.

Ekki skortir lið Inter valkosti í sókninni fyrir leikinn á morgun, en þeir Zlatan Ibrahimovic og Hernan Crespo fundu sig vel í leikjunum fyrir hlé. Þá hefur endurkoma brasilíska framherjans Adriano vakið athygli, en hann skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni gegn Atalanta á þorláksmessu og skoraði svo aftur í bikarleik gegn Empoli. Adriano var á tíma í haust sendur heim til Brasilíu til að reyna að ná áttum eftir að hafa farið ömurlega af stað í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×