Enski boltinn

Upson vill ekki vera hjá Birmingham

Matthew Upson hefur hér betur gegn Michael Owen hjá Newcastle.
Matthew Upson hefur hér betur gegn Michael Owen hjá Newcastle. MYND/Getty

Umboðsmaður varnarmannsins Matthew Upson hefur lýst því yfir að leikmaðurinn sjái framtíð sína ekki í herbúðum Birmingham, en hann er með samning við liðið sem rennur út eftir 18 mánuði. Ummæli umboðsmannsins verða líklega til þess að Birmingham haldi uppboð á Upson á næstu dögum, þar sem hæstbjóðandi hreppi hnossið.

Þar sem Upson hefur ítrekað lýst yfir vilja sínum að yfirgefa Birmingham er talið að forráðamenn liðsins sjái hagsmunum sínum best varið með því að selja leikmanninn strax, svo að sem mestir peningar fáist. Talið er að Upson, fyrrum leikmaður Arsenal, sé metinn á um sex milljónir punda.

Steve Bruce, stjóri Birmingham, vill hins vegar með engu móti missa Upson en hingað til hafa ný samningstilboð félagsins ekki verið freistandi fyrir varnarmanninn. Birmingham er í efsta sæti ensku 1. deildarinnar sem stendur og stefnir hraðbyri á úrvalsdeildina á næstu leiktíð. Bruce segir að úrvalsdeildarsæti geti orðið til þess að Upson snúist hugur.

"Vonandi verðum við í úrvalsdeildinni í sumar og þá fáum við meiri pening til að setja í samning Upson. Þá getum við vonandi gert honum tilboð sem hann getur ekki hafnað," sagði Bruce.

Liverpool, Bolton, Portsmouth og jafnvel Chelsea eru sögð fylgjast vel með gangi mála hjá Upson.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×