Tímamót Þorsteinn Pálsson skrifar 23. október 2007 00:01 Upphaf kirkjuþings þjóðkirkjunnar varpar ágætu ljósi á tvenns konar tímamót í þróun hennar. Önnur lúta að stjórnskipulegri stöðu kirkjunnar. Hin varða aðlögun gagnvart almennum viðhorfum í nútímanum um stöðu samkynhneigðra. Þess misskilnings gætir oft og einatt í umræðum um kirkjuna að hún sé íhaldssöm fyrir þá sök að eðli hennar er varðstaða um grundvallargildi í samfélagi manna. Um leið og hún verður reikul í rásinni í þeim efnum má ljóst vera að spurningar vakna um tilgang hennar. Þetta er hins vegar ekki spurning um íhaldssemi. Þau gildi um breytni og háttu í samfélagi manna sem boðskapur kirkjunnar snýst um ná jafnt til róttækra sem íhaldssamra þjóðfélagsviðhorfa og eru óháð öllum tíma. Kirkjan þarf þar á móti að gæta þess að falla sem best að þeim samtíma sem virðir þau lögmál. Samkynhneigðir njóta nú sama réttar og sömu stöðu og gagnkynhneigðir. Sú breyting hefur gerst hratt en samt tekið sinn tíma. Um hana er víðtæk sátt. Tillaga biskups á kirkjuþingi um þetta efni bendir til að þjóðkirkjan ætli að verða skjótvirkari en flestar aðrar kirkjur með aðlögun að samtímanum að þessu leyti. Það eru tímamót þegar slíkt skref er stigið. Þau sýna að þjóðkirkjan veldur vel slíkum viðfangsefnum. Aðgerðaleysi hefði á hinn veginn veikt kirkjuna. Enginn teljandi trúarlegur ágreiningur sýnist vera um efnislegt innihald þeirra réttinda sem lúta að sambúð gagnkynhneigðra annars vegar og samkynhneigðra hins vegar. Eftir standa skiptar skoðanir um orðnotkun; hvort nota eigi eitt eða tvö heiti um sambúð með því að hún er ekki alls kostar eins. Tilfinningaleg rök á báða bóga eru skiljanleg. Þróun almennrar málnotkunar gæti á endanum ráðið mestu um lyktir þess efnis. Hitt telst einnig til tímamóta þegar kirkjumálaráðherrann lýsir því yfir að þar sé komið í sjálfstæðisþróun þjóðkirkjunnar að ráðherrann hafi ekki lengur stjórnskipuleg verkefni með höndum sem snerta innra starf hennar. Af því tilefni vísaði ráðherrann til hugmynda um að leggja kirkjumálaráðuneytið niður og færa þjóðkirkjuna undir embætti forsætisráðherra. Fyrir áratug var stigið stórt skref til þess að gera þjóðkirkjuna sem mest sjálfstæða um eigin mál. Nú er þeim markmiðum að mestu náð. Við þær aðstæður er eðlilegt að skoða breytingar á stöðu þjóðkirkjunnar innan framkvæmdavaldsins og hvort rétt sé að forsætisráðherra fari með stjórnskipuleg tengsl gagnvart þjóðkirkjunni. Það er um margt rökrétt. Að því virtu að framkvæmdavaldið hefur engin hefðbundin stjórnsýsluverkefni á sinni könnu gagnvart þjóðkirkjunni kæmi einnig til álita að gæsla stjórnskipulegra tengsla við þjóðkirkjuna yrði færð til forseta Íslands. Stjórnskipuleg tengsl fá táknrænni ímynd nú þegar engin bein stjórnsýsluverkefni um þjóðkirkjumál eru lengur á höndum ráðherra. Einingarhlutverk forsetaembættisins er táknrænt í eðli sínu. Almenn samstaða er um gildi þess. Í því ljósi gæti einmitt farið vel á því að forseti Íslands sem einingar- og samstöðutákn þjóðarinnar hefði það hlutverk að blása anda í þau tengsl sem mælt er fyrir um í stjórnarskrá um samband ríkis og kirkju. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sorg barna - fyrstu viðbrögð barna við missi Matthildur Bjarnadóttir Skoðun Með styrka hönd á stýri í eigin lífi Árni Sigurðsson Skoðun Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Hjólað inní framtíðinna Búi Bjarmar Aðalsteinsson Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Halldór 11.01.2025 Halldór Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Hugvíkkandi meðferðir eru fortíð okkar, nútíð og framtíð Sara María Júlíudóttir Skoðun
Upphaf kirkjuþings þjóðkirkjunnar varpar ágætu ljósi á tvenns konar tímamót í þróun hennar. Önnur lúta að stjórnskipulegri stöðu kirkjunnar. Hin varða aðlögun gagnvart almennum viðhorfum í nútímanum um stöðu samkynhneigðra. Þess misskilnings gætir oft og einatt í umræðum um kirkjuna að hún sé íhaldssöm fyrir þá sök að eðli hennar er varðstaða um grundvallargildi í samfélagi manna. Um leið og hún verður reikul í rásinni í þeim efnum má ljóst vera að spurningar vakna um tilgang hennar. Þetta er hins vegar ekki spurning um íhaldssemi. Þau gildi um breytni og háttu í samfélagi manna sem boðskapur kirkjunnar snýst um ná jafnt til róttækra sem íhaldssamra þjóðfélagsviðhorfa og eru óháð öllum tíma. Kirkjan þarf þar á móti að gæta þess að falla sem best að þeim samtíma sem virðir þau lögmál. Samkynhneigðir njóta nú sama réttar og sömu stöðu og gagnkynhneigðir. Sú breyting hefur gerst hratt en samt tekið sinn tíma. Um hana er víðtæk sátt. Tillaga biskups á kirkjuþingi um þetta efni bendir til að þjóðkirkjan ætli að verða skjótvirkari en flestar aðrar kirkjur með aðlögun að samtímanum að þessu leyti. Það eru tímamót þegar slíkt skref er stigið. Þau sýna að þjóðkirkjan veldur vel slíkum viðfangsefnum. Aðgerðaleysi hefði á hinn veginn veikt kirkjuna. Enginn teljandi trúarlegur ágreiningur sýnist vera um efnislegt innihald þeirra réttinda sem lúta að sambúð gagnkynhneigðra annars vegar og samkynhneigðra hins vegar. Eftir standa skiptar skoðanir um orðnotkun; hvort nota eigi eitt eða tvö heiti um sambúð með því að hún er ekki alls kostar eins. Tilfinningaleg rök á báða bóga eru skiljanleg. Þróun almennrar málnotkunar gæti á endanum ráðið mestu um lyktir þess efnis. Hitt telst einnig til tímamóta þegar kirkjumálaráðherrann lýsir því yfir að þar sé komið í sjálfstæðisþróun þjóðkirkjunnar að ráðherrann hafi ekki lengur stjórnskipuleg verkefni með höndum sem snerta innra starf hennar. Af því tilefni vísaði ráðherrann til hugmynda um að leggja kirkjumálaráðuneytið niður og færa þjóðkirkjuna undir embætti forsætisráðherra. Fyrir áratug var stigið stórt skref til þess að gera þjóðkirkjuna sem mest sjálfstæða um eigin mál. Nú er þeim markmiðum að mestu náð. Við þær aðstæður er eðlilegt að skoða breytingar á stöðu þjóðkirkjunnar innan framkvæmdavaldsins og hvort rétt sé að forsætisráðherra fari með stjórnskipuleg tengsl gagnvart þjóðkirkjunni. Það er um margt rökrétt. Að því virtu að framkvæmdavaldið hefur engin hefðbundin stjórnsýsluverkefni á sinni könnu gagnvart þjóðkirkjunni kæmi einnig til álita að gæsla stjórnskipulegra tengsla við þjóðkirkjuna yrði færð til forseta Íslands. Stjórnskipuleg tengsl fá táknrænni ímynd nú þegar engin bein stjórnsýsluverkefni um þjóðkirkjumál eru lengur á höndum ráðherra. Einingarhlutverk forsetaembættisins er táknrænt í eðli sínu. Almenn samstaða er um gildi þess. Í því ljósi gæti einmitt farið vel á því að forseti Íslands sem einingar- og samstöðutákn þjóðarinnar hefði það hlutverk að blása anda í þau tengsl sem mælt er fyrir um í stjórnarskrá um samband ríkis og kirkju.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun