Viðskipti erlent

Hleypur í fyrsta skipti í tuttugu ár

Fimm íslenskir stoðtækjanotendur fengu í gær háþróaða hlaupafætur að gjöf frá Össuri hf. til að auðvelda þeim að hreyfa sig reglulega og njóta lífsins betur. Lárus Gunnsteinsson hjá Össuri segir að gríðarleg þróun hafi verið á hlaupafótum síðustu árin. Efnið er úr koltrefjar með sérstakri lögun og valið fyrir hvern og einn einstakling og hvað hann hugsar sér að gera.



„Það má kannski geta þess að Tryggingastofnun greiðir ekki hjálpartæki til íþróttaiðkana,“ segir Lárus. „Fulltrúar frá stofnuninni voru hér í dag og sýndu þessu gríðarlegan áhuga. Það er ljóst að hreyfing og þjálfun kemur í veg fyrir aðra sjúkdóma. Aflimun einhvers háttar eykur hættu á sykursýki og æðasjúkdómum því hreyfing minnkar mjög í kjölfarið. Þetta er gríðarleg skerðing á lífsgæðum, ég tala ekki um fyrir ungt fólk sem er vant íþróttum.“



Guðmundur Ólafsson var einn af þeim sem fengu hlaupafæturna og var hæstánægður með þá. „Þetta er í fyrsta skipti í tuttugu ár sem ég hleyp. Ég er búinn að æfa mig í nokkra tíma og þetta gengur frábærlega. Það er eins og ég hafi lent í lukkupotti. Ég er aðstoðarþjálfari Fjölnis í fótbolta og nú þýðir ekkert fyrir strákana að kalla Gummi og hlaupa svo í burtu. Ég get náð þeim núna,“ sagði hann í léttum dúr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×