Tónlist

Sameinaðir kraftar

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Lára Sóley Jóhannsdóttir fiðluleikari leikur einleik með sveitinni á morgun.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Lára Sóley Jóhannsdóttir fiðluleikari leikur einleik með sveitinni á morgun.

Tónlistarskólinn á Akureyri heldur dag tónlistarskólanna hátíðlegan og efnir til mikillar músíkveislu ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands um helgina.

Ketilhúsið ómar af músík í allan dag en þar munu nemendur á öllum stigum koma fram og leika fjölbreytta tónlist á ýmis hljóðfæri. Fyrstu tónleikarnir hefjast kl. 11 og síðan á klukkustundarfresti fram eftir degi. Lokatónleikar dagsins kl. 17 eru helgaðir minningu Þorgerðar S. Eiríksdóttur sem var píanónemandi við skólann en lést af slysförum í London þar sem hún stundaði framhaldsnám.

Á tónleikunum koma fram nemendur í framhaldsdeild skólans. Ókeypis er á alla tónleikana í Ketilhúsinu en tekið á móti frjálsum framlögum í Þorgerðarsjóð.

Veislan heldur áfram á morgun en þá leika nemendur skólans ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Akureyrarkirkju kl. 16 og leika strengjasveitir þeirra saman. Á efnisskránni er tónlist eftir Hafliða Hallgrímsson, Hróðmar Inga Sigurbjörnsson, Otto Respighi, Albinoni, Mascagni, Britten og Vivaldi. Stjórnandi á tónleikunum er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Einleikari á fiðlu er Lára Sóley Jóhannsdóttir en hún leikur einleik í Vetrinum eftir Vivaldi. Lára Sóley hóf fiðlunám sitt við Tónlistarskóla Húsavíkur en fór þaðan í Tónlistarskólann á Akureyri og síðar í framhaldsnám til Englands. Hún lauk prófi frá The Royal Welsh College of Music and Drama sumarið 2006. Við útskrift hlaut Lára „The Peter Esswood Price“ fyrir góðan námsárangur. Hún starfar nú sem fiðlukennari við Tónlistarskólann á Akureyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×