Tónlist

Baggalútur á Bessastöðum

Dorrit Verndari Eyrarrósarinnar mun hlýða á þá Baggalúta sem bera ótakmarkaða virðingu fyrir henni og embættinu.
Dorrit Verndari Eyrarrósarinnar mun hlýða á þá Baggalúta sem bera ótakmarkaða virðingu fyrir henni og embættinu.

Drengirnir í Baggalúti troða upp á Bessastöðum í dag. Guðmundur Pálsson segir þetta mikinn heiður, enda séu þeir allir aðdáendur forsetans og konu hans.

„Þetta er gamall draumur. Bagga-lútur er nú loksins að komast til æðstu metorða. Þetta er mikill heiður en allir erum við miklir aðdáendur forsetans og þá ekki síður konu hans," segir Guðmundur Pálsson, forsöngvari Baggalúts.

Hljómsveitin mun troða upp á Bessastöðum í dag í tilefni afhendingar Eyrarrósarinnar þar í dag. Tilnefnd til verðlauna eru Safnasafnið, Sumartónleikar í Skálholtskirkju og Strandagaldur. Verndari verðlaunanna, sem eru fyrir afburða menningarstarf, er einmitt Dorrit Moussaieff forsetafrú.

Guðmundur segir Baggalúta alla yfirlýsta aðdáendur Vigdísar Finnbogadóttur. Segir hana móður okkar allra, sameiningartákn og fjallkonu. Herra Ólafur sé meira svona öryggisventill.

 

Gamall draumur rætist í dag en þeir ætla að vera í sparifötum og nýrakaðir þegar þeir troða upp á Bessastöðum fyrsta sinni.

„Enginn maður í sögunni hefur áður verið notaður sem öryggisventill. Og Dorrit, það er smá Vigdís í henni. Hún er meiri samkvæmisdama en Vigdís og jafn hugguleg. Það má ekki hverfa. Forsetinn má ekki hafa einhverja subbu sér við hlið eða vera subba. Það er á hreinu. En fyrst og fremst berum við ótakmarkaða virðingu fyrir embættinu sem slíku."

Ekki hefur enn verið ákveðið hvað verður spilað fyrir forsetann og þá sem verða viðstaddir hina virðulegu viðhöfn en það verður eitthvað hámenningarlegt. Og af slíku efni þykjast Baggalútar eiga nóg í fórum sínum.

„Þetta leggst mjög vel í okkur. Við erum mjög spenntir. Og ætlum allir að vera í sparifötum og nýrakaðir. Ekki havaii-skyrtur eða kobboj-galli. Þetta er gala-gigg."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.