Innlent

Ekki mat Persónuverndar

Persónuvernd hefur ekki fengið beiðni um að úrskurða um lögmæti þess að Norðurál ætli að láta starfsmenn sína gangast undir lyfjapróf til að ganga úr skugga um að þeir noti ekki ólöglega vímugjafa.

Málefnaleg rök þurfa að liggja til grundvallar slíkum aðgerðum að sögn lögfræðings Persónuverndar.

Þau tíðndi að Norðurál á Grundartanga ætli að láta alla 400 starfsmenn sína gangast unir lyfjapróf hefur vakið athygli. Haft er eftir Ragnari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Norðuráls í fréttum Útvarpsins að starfsfólkið hafi stungið upp á þessu og að ekkert í lögum um persónuvernd banni svona próf. Það hefur þó ekki á það reynt.

Þórður Sverrisson, löfræðingur hjá Persónuvernd segir að ekkert erindi hafi borist um að stofnunin leggi mat á þetta mál - hvorki frá starfsfólki né frá fyrirtækinu. Hann segir að almennt gildi sú regla að málefnaleg rök verði að liggja til grundvallar aðgerð af þessu tagi. Fá fordæmi liggja fyrir um sambærileg mál. Þórður nefnir þó sem dæmi úrskurð sem snéri að lyfjafyrirtækinu Actavis. Þar vildi fyrirtækið að verðandi starfsmenn fengju vottorð frá lækni um að umsækjendur hefðu ekki smitsjúkdóm sem gæti ógnað öryggi lyfjaframleiðslunnar. Persónuvernd féllst á að þetta teldust málefnaleg rök og heimilaði þessa kröfu.

Nú liggur ekki fyrir hvaða rök liggja til grundvallar ákvörðun Norðuráls - hvort þar er vísað til öryggis á hættulegum vinnustað eða annars - og ekki heldur hvort Persónuvernd teldi slík rök málefnaleg og ástæðurnar nægjanlega brýnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×