Innlent

Fyrrverandi landlæknir, forstöðumaðurinn og geðlæknir bera faglega ábyrgð á Byrginu

Guðmundur Jónsson forstöðumaður í Byrginu, Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir og Magnús Skúlason læknir bera faglega ábyrgð á starfsemi Byrgisins.

Þetta kemur fram í svörum Byrgisins við spurningum sem félagsmálaráðherra sendi stjórn stofnunarinnar rétt fyrir jólin. Þar segir líka að eftirlit með starfseminni eigi að vera hjá ríkisendurskoðun og ráðuneytinu. Mest sláandi breytingar síðustu tvö árin segir í greinargerð Byrgisins er hríðlækkandi meðalaldur vistmanna. Meðalaldur karla er nú 32 ár en meðalaldur kvenna 28 ár. Flestir vistmenn eru þó eftir sem áður heimilislausir. Einnig kemur fram að stjórnin mótmælir þeim ásökunum sem fram hafa komið um að Byrgið hafi í óleyfi rekið afeitrunardeild en í opinberum gögnum, meðal annars skýrslu sem unnin var um meðferðarúrræði fyrir heilbrigðisráðuneytið er tiltekinn fjöldi rúma í Byrginu fyrir afeitrun. Í svörum stjórnar segir hins vegar að Byrgið hafi rekið aðhlynningardeild þar sem fólk hefur dvalið í allt að 10 daga áður en hefðbundin meðferð hefst. Að öðru leyti tekur stjórnin ekki afstöðu til ásakana sem fram hafa komið í fjölmiðlum - en tekið er fram að stjórnin muni leitast við að upplýsa alla þætti málsins. Stjórnin er skipuð Guðmundi Jónssyni forstöðumanni Byrgisins, sem hefur vikið tímabundið frá, og Jóni Arnarri Einarssyni sem gegnir stöðu forstöðumanns Byrgisins í hans stað .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×