Innlent

Kveikt var í skammt frá olíubirgðastöð Eyja

Ellefu íkveikjur hafa verið á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum síðustu sex ár. Í gærmorgun var kveikt í geymslugámi sem er skammt frá olíubirgðageymslum Eyjanna.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum segir ekki til tölfræði sem segi til um hvort íkveikjurnar í Vestamannaeyjum séu fleiri en annarsstaðar. Ellefu íkveikjur síðustu sex ár eru óupplýstar og heilt yfir er staðan ekki góð því líkur eru taldar á að brennuvargur eða vargar séu á ferðinni.

Fyrsti bruninn varð í Ísfélaginu í desember árið 2000. Síðan hefur verið reynt að kveikja í Lifrarsamlaginu um einu sinni á ári eða alls sex sinnum en grunur er um að fikt hafi orðið til þess að þar kviknaði í. Þá hefur tvisvar verið kveikt í Fiskiðjunni, síðast um miðjan desember og á svipuðum tíma var kveikt Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins. Og í gærmorgun var svo kveikt í gámi á hafnarsvæðinu.

Gámurinn er aðeins um eitt til tvö hundruð metra frá olíubirgðum Eyjamanna. Lögreglan hefur margsinnis beðið um ábendingar frá bæjarbúum sem geta hjálpað til við að upplýsa málin, og ítrekar þá beiðni, en árangurinn hefur verið lítill hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×