Innlent

Mikið tjón í eldsvoða í Mývatnssveit í gær

Mikil eyðilegging varð í bruna í Mývatnssveit í gær. Karlmaður, sem slasaðist mikið í eldsvoðanum, hefur verið fluttur á Landsspítalann til meðferðar. Hann er ekki talinn í lífshættu.

Það tók slökkvilið Húsavíkur og slökkvilið Mývatnssveitar rúmlega fjórar klukkustundir að ráða niðurlögum eldsins en hátt í tuttugu manns komu að slökkvistarfinu. Eins og greint var frá í fréttum okkar í gærkvöldi þá kom eldurinn upp í húsnæðinu á fimmta tímanum í gær en í húsinu var vélaverkstæði og trésmíðaverkstæði.

Eldurinn braust út í þeim hluta hússins sem hýsti vélaverkstæðið þar sem mikið var um eldfim efni svo sem hjólbarðar, gaskútar, olíutunnur, bifreiðar og fleira. Eldvarnarveggur sem skildi að vélaverkstæðið og trésmíðaverkstæðið hélt og slapp því trésmíðaverkstæðið alveg við eld en eitthvað tjón varð þar vegna vatns og reyks.

Einn maður slasaðist í brunanum, aðallega í andliti og á bringu og var hann fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á akureyri til aðhlynningar. Yfirlæknir á gjörgæsludeild spítalans segir mannin hafa hlotið umtalsverða brunaáverka en þó ekki lífshættulega og var hann fluttur á Landsspítalann síðdegis í dag í sérhæfða meðferð.

Húsnæðið er í eigu Malarvinnslunnar á Egilsstöðum og segir Sigurþór Sigurðsson , einn eiganda Malarvinnslunnar tjónið hlaupa á tugum milljóna enda eyðilagðist alls sem í vélaverkstæðinu var þar á meðal fjórir bílar. Eldupptök eru ókunn og mun rannsókn standa yfir næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×