Enski boltinn

Adebayor: Ég myndi spila frítt fyrir Arsenal

Emanual Adebayor hefur verið öflugur í framlínu Arsenal í síðustu leikjum.
Emanual Adebayor hefur verið öflugur í framlínu Arsenal í síðustu leikjum. MYND/Getty

Emanual Adebayor, framherjinn stóri og stæðilegi hjá Arsenal, kveðst svo ánægður í herbúðum liðsins að hann væri reiðubúinn að spila án þess að þiggja laun fyrir. Adebayor hefur unnið hug og hjörtu stuðningsmanna liðsins, að sögn stjórans Arsene Wenger, sem er hæstaánægður með frammistöðu pilts.

"Það tók mig langan tíma að átta mig á því að ég hafði skrifað undir hjá félaginu þar sem hetjan mín, Kanu, var á mála hjá. Á þeim tíma voru heimakynni mín full af plakötum með mynd af Kanu og nokkur þeirra eru ennþá uppi á vegg á heimili mínu í Togo," en það er heimaland Adebayor.

"Það var ótrúlegur heiður fyrir mig að fá treyjuna hans Kanu (nr. 25) þegar hann fór til Portsmouth. Það er einstakt að spila fyrir Arsene Wenger og andrúmsloftið hér er frábært. Í sannleika sagt, þá myndi ég spila frítt fyrir félagið," segir Adebayor.

Stjórinn Arsene Wenger segir að Adebayor sé orðinn mjög mikilvægur hluti af liði Arsenal og viðurkennir stórt hlutverk hans í framlínu liðsins nú þegar fyrirliðinn Thierry Henry er frá vegna meiðsla.

"Hann hefur unnið hug og hjörtu stuðningsmannanna vegna þess að hann leggur sig alltaf allan fram. Hann býr yfir góðri blöndu eiginleika frá Frakklandi og Englandi; hann er góður í loftinu, reynir að ná til hvers einasta bolta, er líkamlega sterkur og býr jafnframt yfir góðri tækni."

"Það tók hann töluverðan tíma að átta sig á aðstæðum í Englandi en ég hafði séð hann spila nokkrum sinnum með Monaco og sá eitthvað sérstakt í honum. Kaupin á honum voru vissulega ákveðin áhætta en sú áhætta hefur augljóslega borgað sig," segir Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×