Sport

Federer ætlar að gera enn betur á næsta ári

Yfirburðir Federer í tennis-íþróttinni eru með hreinum ólíkindum.
Yfirburðir Federer í tennis-íþróttinni eru með hreinum ólíkindum. MYND/Getty

Roger Federer, langbesti tennisspilari heims, stefnir á að ná enn betri árangri á næsta ári en hann gerði á þessu ári. Federer segir það vel mögulegt, þrátt fyrir að hann hafi verið nánast óstöðvandi í ár.

Federer tók þátt í 17 mótum á árinu sem senn er að ljúka og komst hann í úrslit í 16 þessara móta. Þá sigraði hann í þremur af fjórum stórmótum ársins, en enn sem komið er hefur Rafael Nadal yfirhöndina gegn Federer á leirvelli, eins og Opna franska meistaramótið er leikið á. Nadal hefur haft mikla yfirburði á leir síðustu ár en Federer segir að eitt af markmiðum sínum á næsta ári sé að bæta sig á þeim vettvangi.

"Ég er að upplifa minn æðsta draum. Ég vona bara að ég vakni ekki alveg strax," sagði Federer í viðtali í vikunni þar sem hann fór yfir síðasta ár og alla velgengnina sem hann upplifði.

"En einn draumurinn sem hefur ekki orðið að veruleika er sigur á Opna franska. Vonandi rætist hann á næsta ári," segir Federer, sem segir þó að önnur markmið séu ekki síður mikilvægari. "Ég vill halda áfram að vinna Wimbledon-mótið og svo stefni ég náttúrulega að því að halda sæti mínu sem efsti maður á heimslistanum," sagði sá svissneski.

"Opna franska mótið er mér mikilvægt en einnig Davis-Cup. Þá eru Ólympíuleikarnir árið 2008 mér einnig ofarlega í huga. Þetta eru mótin sem ég á eftir að vinna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×