Enski boltinn

Redknapp ekki stressaður yfir leikmannamálum

Harry Redknapp hefur verið gríðarlega snjall í leikmannakaupum sínum hjá Portsmouth.
Harry Redknapp hefur verið gríðarlega snjall í leikmannakaupum sínum hjá Portsmouth. MYND/Getty

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Portsmouth, segist ekki hafa sett niður neinn óskalista af leikmönnum sem hann vill fá til síns liðs í janúar, en að hann muni ábyggilega fá einhverja leikmenn til að styrkja liðið. Redknapp segir markmið félagsins hafa breyst eftir gott gengi það sem af er leiktíð.

"Það er um að gera að styrkja liðið þegar svona vel gengur. Við eigum góða möguleika á Evrópusæti ef fram heldur sem horfir," segir Redknapp, en Portsmouth situr í sjötta sæti deildarinnar.

Redknapp tók við liði Portsmouth á miðju síðasta tímabili og gerði frábæra hluti með liðið á síðari hluta tímabilsins. Hann fékk m.a. annars til liðsins þá Sean Davis, Pedro Mendes og Noe Pamarot í janúar á síðasta ári, og hafa þeir allir átt stóran þátt í velgengni liðsins í ár. Redknapp vonast til að fá leikmenn sem hafa sömu áhrif á liðið og þeir þremenningar gerðu fyrir nákvæmlega ári síðan.

"Ég er ekki með nein sérstök nöfn í huga en ég held að það sé sniðugt að fá 1-2 leikmenn. Mér dettur ábyggilega enhver nöfn í hug á næstu dögum," sagði Redknapp, augljóslega sallarólegur yfir stöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×