Enski boltinn

Benitez ánægður með Gerrard á miðjunni

Steven Gerrard hefur farið á kostum með Liverpool í undanförnum leikjum - á miðjunni.
Steven Gerrard hefur farið á kostum með Liverpool í undanförnum leikjum - á miðjunni. MYND/Getty

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, gaf sterklega í skyn í viðtali við enska dagblaðið The Mirror fyrir helgi að hann hyggist nota fyrirliða sinn Steven Gerrard á miðjunni, en ekki hægri kantinum eins og hann gerði framan af tímabilinu. Gerrard hefur skorað fjögur mörk í sex leikjum frá því að hann fór á miðja miðjuna.

Liverpool hefur gengið afskaplega vel upp á síðkastið og vilja margir meina að það sé vegna þess að Gerrard sé í stöðu þar sem hann njóti sín betur. En hvað gerir Benitez þegar Momo Sissoko snýr aftur er spurning sem margir velta fyrir sér. Sissoko er óðum að ná sér og er búist við því að hann verði orðinn leikfær eftir innan við tvær vikur. En ef eitthvað má lesa úr orðum Benitez við Mirror þá er ekki ólíklegt að hann verði að sætta sig við að að verma varamannabekkinn.

"Mér finnst Gerrard vera að taka stórstígum framförum sem miðjumaður," sagði Benitez. "Einn af þeim hlutum sem við erum að reyna að bæta hjá honum eru hlaupin inn í vítateiginn. Hann er í ábyrgðarstöðu og verður að velja réttu augnablikin til að stinga sér inn fyrir vörnina. Ef hann fer of snemma verður bilið á milli hans og Xabi Alonso of stórt og þá er fjandinn laus. Það verður að vera jafnvægi í liðunu og þess vegna getur Gerrard ekki hlaupið fram hvenær sem hann vill," sagði Benitez.

"Ég ætla ekki að segja að Gerrard skorti aga, en stundum þarf að minna hann á að hafa hemil á sér. Honum langar alltaf að skora en hann hefur sínar varnarskyldur og hann er sífellt að átta sig betur á þeim. Hann er ótrúlega kraftmikill leikmaður, með endalausan sprengikraft og einn hans helsti styrkur að stinga sér inn í teiginn á ógnarhraða. Ég fullyrði að hann, og við sem lið, erum alltaf að bæta okkur í þessu skipulagi."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×