Enski boltinn

17 leikmannaskipti rannsökuð frekar

Lord Stevens
Lord Stevens Nordicphotos/Getty images.

Lord Stevens tilkynnti á blaðamannafundi í dag að 17 af þeim 362 leikmannaskiptum sem rannsökuð hafa verið í spillingarmálinu í enska boltanum verði rannsökuð enn frekar. Lítið markvert kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var vegna þessa í dag, en þar lýsti Stevens yfir óánægju sinni með óliðlegheit nokkurra stórra umboðsmanna.

"Ég veit að allir vilja heyra okkur nefna nöfn í dag, en það gerum við ekki á þessu stigi. Þetta eru ekki nornaveiðar og eina ástæðan fyrir því að við nefnum ekki nöfn er að rannsóknin stendur enn yfir. Við getum þó upplýst að meirihluti félaga og félagaskipta sem við höfum rannsakað eru í mjög góðu lagi og ekkert út á það að setja, en þó er bókhaldi og eftirliti með félögum stórlega ábótavant. Við munum ekki nefna nein nöfn í tengslum við rannsókn fyrr en gögn liggja fyrir svo hægt sé að kæra menn með beinum hætti. Núna einbeitum við okkur að umboðsmönnunum - ekki félögum eða starfsmönnum þeirra," sagði Stevens.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×