Innlent

Könnunarviðræður halda áfram

Könnunarviðræðum um varnarsamstarf Íslendinga við Dani og Norðmenn lauk í dag. Þeim verður fram haldið á næsta ári auk þess sem rætt verður við Breta og Kanadamenn. Utanríkisráðherra segir að byggt verði á eldra samstarfi við þessar fjórar þjóðir.

Viðræður við Dani fóru fram í Kaupmannahöfn í gær og verður framhaldið í Reykjavík í febrúar. Viðræðunefnd Norðmanna kom hingað til lands í gærkvöldi og kom til fundar í utanríkisráðuneytinu í morgun. Sendinefndin kannaði síðan öryggissvæðið svokallaða í Keflavík sem Íslendingar hafa ákveðið að bjóða til æfinga. Aftur verður fundað með Norðmönnum í Ósló snemma á næsta ári og einnig rætt við Breta og Kanadamenn.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segir viðræðurnar í morgun hafa verið jákvæðar. Íslendingar vilji gjarnan byggja samstarf á því sem fyrir sé, meðal annars á sviði friðargæslu og æfinga vegna Landhelgisgæslunnar. Viðræðurnar fari þannig af stað að það sé óhætt að trúa því að þetta verði jákvæð þróun fyrir öryggismál á svæðinu til framtíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×