Erlent

Skotbardagi þrátt fyrir vopnahlé

Til skotbardaga kom í miðri Gaza-borg snemma í morgun þrátt fyrir að fulltrúar Hamas- og Fatah-hreyfinga Palestínumanna hefðu samið um vopnahlé. Abbas forseti stendur við yfirlýsingu sína um að boðað verði til kosninga á næsta ári, og það þó viðræður um skipan þjóðstjórnar verði haldið áfram í vikunni.

Um tíu grímuklæddir liðsmenn Hamas, gráir fyrir járnum, leituðu skjóls í miðborginni um leið og þeir skiptust á skotum við jafn marga byssumenn úr hópi Fatah-liða. 16 ára drengur særðist í átökunum.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, lýsti því yfir um helgina að boðað yrði til kosninga þremur árum fyrr þar sem viðræður um skipan þjóðstjórnar hefðu siglt í strand. Hamas-liðar sögðu það valdarán. Það var svo í gærkvöldi sem ákveðið var að halda viðræðum um þjóðstjórn áfram. Abbas sagði síðan í morgun að þrátt fyrir það yrði áfram stefnt að kosningum eftir áramót.

Því virðist sem viðræður um skipan þjóðstjórnar fresti ekki ákvörðun forsetans líkt og margir hefðu talið. Fulltrúar Fatah og Hamas funda síðan í vikunni og reyna að hrinda viðræðuferlinu af stað á ný. Koma á veg fyrir vopnuð átök liðsmanna, öryggissveitir fá að snúa aftur í höfuðstöðvar sínar, gíslar verða látnir lausir og endir bundinn á umsátur um ráðuneyti heimastjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×