Enski boltinn

Verðum að klára færin okkar

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson sagði sína menn í Manchester United hafa farið illa með færi sín enn eina ferðina í dag og sagði það helstu ástæðuna fyrir tapinu gegn West Ham. Hann vill þó ekki meina að Chelsea sé komið í vænlega stöðu til að hirða af þeim toppsætið í deildinni.

"Við erum búnir að fara illa með færin okkar og það varð okkur dýrkeypt í kvöld. Ég er búinn að ræða þetta við strákana og við verðum að laga þetta undir eins. Ég er ekki viss um að Chelsea sé að sækja sérstaklega hart að okkur þó þeir hafi náð í frábæran sigur í dag sem þeir kræktu í upp úr engu. Við þurfum nú að koma okkur á góðan skrið sjálfir og sýna úr hverju við erum gerðir. Við ætlum þó ekkert að örvænta þó við töpum einum leik, því ekkert lið hefur unnið titilinn í desember," sagði Ferguson.

Alan Curbishley var að vonum sáttari með frammistöðu sinna manna í sínum fyrsta leik við stjórnvölinn hjá West Ham. "Strákarnir hafa verið gagnrýndir harkalega undanfarið en nú verða þeir að gjöra svo vel og rétta úr kútnum til að bjarga sér frá falli. Þetta var góður sigur og vonandi getum við byggt á þessum úrslitum," sagði Curbishley rólegur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×