Enski boltinn

Lélegasti hálfleikur undir minni stjórn

Paul Jewell var ekki kátur með slaka frammistöðu Wigan í dag
Paul Jewell var ekki kátur með slaka frammistöðu Wigan í dag NordicPhotos/GettyImages

Paul Jewell, stjóri Wigan, sagði að fyrri hálfleikurinn í dag hefði verið lélegasti hálfleikur sem lið hans hafi spilað síðan hann tók við stjórn þess fyrir fjórum árum. Wigan tapaði á heimavelli fyrir lærisveinum Neil Warnock í Sheffield United, en þar á bæ voru menn að vonum kátari með niðurstöðuna.

"Fyrri hálfleikurinn var lélegasta frammistaða sem ég hef séð frá þessu liði í einum hálfleik síðan ég kom hingað fyrir fjórum árum. Við vorum slappir og börðumst ekki neitt - og það eru ekki hlutir sem Wigan hefur verið sakað um hingað til. Ég bara þekkti ekki lið mitt í fyrri hálfleiknum og ég finn mig knúinn til að biðjast afsökunar á þessum ósköpum," sagði Jewell.

Kollegi hans Neil Warnock var að vonum kátari með sína menn í Sheffield United sem lönduðu þremur mikilvægum stigum í botnbaráttunni og lyftu sér fyrir vikið í 14. sætið með 20 stig.

"Ég á ekki til lýsingarorð á strákana í dag. Þeir spiluðu með hjartanu og börðust eins og ljón og ég er sjálfur að njóta þess eins og leikmennirnir að krækja í stig í þessari deild öllum að óvörum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×