Innlent

Nýr fjárfestingarbanki stofnaður

Nýr íslenskur fjárfestingarbanki var stofnaður í dag, Askar Capital. Bankinn hefur störf um áramótin og verður með starfsstöðvar í Reykjavík, Lundúnum, Lúxemborg, Búkarest og Hong Kong. Eigið fé við stofnun er 11 milljarðar króna og starfsmenn rúmlega 40.

Kjölfestufjárfestir bankans er Milstone, sem er í eigu Karls Wernerssonar og systkina hans. Aðrir stofnendur og hluthafar eru Sjóvá, Fjárfestingarfélagið Aquila Venture Partners, sem hefur umsjón með yfir sjötíu milljörðum í fasteignafjárfestingum víða um heim, og Ráðgjöf og efnahagsspá.

Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, er forstjóri Aska Capital. Hann segir bankann ekki taka við innlánum. Hann verði ekki í viðskiptabankastarfsemi. Hann muni annast fjárfestingar, ráðgjöf og fjármögnun. Helstu viðskiptavinir verði stofnanafjárfestar á borð við lífeyrissjóði, fagfjárfestar og fjárfestingafélög sem efnaðir einstaklingar eigi. Svo verði bankarnir viðskiptavinir. Þeim verði boðin vara til smásölu.

Höfuðstöðvar Aska Capital verða í Reykjavík en starfsstöðvar einnig í Lundúnum, Lúxemborg, Búkarest og Hong Kong. Tryggvi Þór segir lagt af stað af miklum metnaði. Horft sé fyrst og fremst út fyrir landsteinana en vissulega verði heimamarkaðurinn rækatður til að koma fótum undir bankann. Síðan verði athyglinni beint erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×