Enski boltinn

Höfðum ekki efni á að tapa stigum í kvöld

Mourinho gat leyft sér að glotta í leikslok í kvöld
Mourinho gat leyft sér að glotta í leikslok í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho hrósaði Didier Drogba í hástert í kvöld þegar Chelsea vann baráttusigur á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni og minnkaði fyrir vikið forskot Man Utd niður í fimm stig á toppi deildarinnar. Mourinho sagði að sínir menn hefðu landað stigunum með baráttu sinni og engu öðru.

"Drogba stóð sig frábærlega. Hann var meiddur og því tók ég áhættu með því að senda hann inn á völlinn. Við þurftum hinsvegar á honum að halda í kvöld og hann gerði sitt með markinu. Mínir menn skildu þau skilaboð sem ég sendi þeim í hálfleik - við máttum einfaldlega ekki við því að tapa stigum. Stundum fær maður stig með því að spila fallega knattspyrnu - en stundum með hjartanu. Við unnum með hjartanu í kvöld," sagði Mourinho og vísaði til baráttugleði sinna manna.

"Ég er stoltur af strákunum í kvöld og mér fannst við eiga skilið að fá stig út úr þessum leik. Chelsea hafði heppnina með sér því sendingin frá Shevchenko á Drogba í markinu var ekki sending, heldur skot sem hann klúðraði. Frábærir leikmenn eru ekki vanir að klúðra skotum sem þessu, en í þetta sinn var þetta gott klúður sem skapaði mark. Það er samt ekki hægt annað en að vera ánægður með baráttu minna manna í dag - ekki síst vegna þess hve marga unga leikmenn við notuðum að þessu sinni," sagði Glenn Roeder, stjóri Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×