Enski boltinn

Naumur sigur Chelsea á Newcastle

Didier Drogba og Andriy Shevchenko fagna hér sigurmarki þess fyrrnefnda gegn Newcastle á Stamford Bridge í kvöld
Didier Drogba og Andriy Shevchenko fagna hér sigurmarki þess fyrrnefnda gegn Newcastle á Stamford Bridge í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Chelsea minnkaði forskot Manchester United niður í fimm stig á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld þegar liðið vann nauman 1-0 sigur á Newcastle á heimavelli sínum. Arsenal vann sömuleiðis 1-0 útisigur í Wigan í baráttuleik.

Chelsea gekk erfiðlega að brjóta þrjóska leikmenn Newcastle á bak aftur og liðið var nálægt því að lenda undir þegar Antoine Sibierski átti skalla í slánna á Chelsea-markinu. Það var svo hinn leikræni Didier Drogba sem bjargaði meisturunum fyrir horn þegar hann skoraði sigurmark Chelsea á 74. mínútu eftir að hafa komið inn sem varamaður.

Arsenal skaust í þriðja sætið með naumum sigri á Wigan á útivelli 1-0 með marki frá Emmanuel Adebayor í blálokin. Wigan fékk fjölda færa í leiknum og fóru þeir Henry Camara og Emile Heskey illa með færi sín. Þremur mínútum fyrir leikslok átti svo varamaðurinn Cesc Fabregas góða sendingu á Adebayor sem gerði út um leikinn fyrir gestina.

Loks tryggði Blackburn sér sigur í riðli sínum í Evrópukeppni félagsliða með 1-0 sigri á franska liðinu Nancy þar sem Lucas Neill skoraði sigurmark Blacburn á 89. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×