Innlent

Bókhald Byrgisins áður til skoðunar

Byrgið fékk áminningu eftir að Varnarmálaskrifstofa Utanríkisráðuneytisins lét taka út bókhald félagsins fyrir nokkrum árum. Félagsmálaráðuneytið segir engan grun um misferli fjár hjá Byrginu.

Eins og fram kom í fréttum okkar í gær hefur félagsmálaráðuneytið óskað eftir því við Ríkisendurskoðun að skoða rekstur meðferðarheimilisins Byrgisins að Efri Brú í Grímsnesi. Samkvæmt heimildum fréttastofu fékk Varnarmálaskrifstofa Utanríkisráðuneytisins óháðan endurskoðanda til að taka út bókhald heimilisins á meðan Byrgið var ennþá til húsa í Rockville á Suðurnesjum. Sú úttekt mun hafa leitt í ljós að bókhaldið væri í óreiðu og fékk Byrgið áminningu í kjölfarið.

Ekki hefur náðst í Guðmund Jónsson forstöðumann Byrgisins í dag en hjá félagsmálaráðuneytinu fengust þær upplýsingar að Ríkisendurskoðun sinnti jafnaðarlega endurskoðun stofnana og fyrirtækja til að ganga úr skugga um það hvernig almannafé sé varið. Engar grunsemdir væru um misferli hjá Byrginu og engin tengsl milli beiðninnar og nafnlausa bréfsins sem sent var háttsettum mönnum í þjóðfélaginu með alvarlegum ásökunum á hendur forstöðumanni Byrgisins.

Félagsmálaráðuneytið hefur á síðustu sjö árum styrkt Byrgið um röskar 200 milljónir króna, meðal annars hefur ríkissjóður síðustu þrjú ár greitt húsaleigu fyrir félagið, sem er 9 milljónir. Ríkið á sjálft húsnæðið.

Athygli vekur að undanfarin þrjú ár hefur félagið fengið styrki frá félagsmálaráðuneytinu samkvæmt samningi sem aldrei var undirritaður af hálfu Byrgisins, þar sem forstöðumaðurinn gerði kröfu um meiri stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×