Enski boltinn

Mourinho ögrar Wenger

Jose Mourinho segir vandræði Arsenal stafa af því að liðið sé ekki nógu duglegt við að laga sig að leikaðferð andstæðinganna
Jose Mourinho segir vandræði Arsenal stafa af því að liðið sé ekki nógu duglegt við að laga sig að leikaðferð andstæðinganna NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho hefur nú sent kollega sínum Arsene Wenger góða sneið fyrir stórleik Chelsea og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn, en Mourinho segir vandræði Arsenal í deildinni í vetur að hluta til stafa af því að Wenger sé ekki nógu góður í að laga lið sitt eftir aðstæðum.

Mourinho var spurður að því hvort hann öfundaði Arsenal af þeirri fallegu og skemmtilegu spilamennsku sem liðið hefur sýnt á köflum í deildinni í vetur, en Mourinho var fljótur að benda á að það hefði ekki úrslitaþýðingu að spila fallegan bolta.

"Við erum lið sem lagar sig að breyttum aðstæðum og það er ástæðan fyrir því að undir minni stjórn höfum við fullt hús stiga á útivelli gegn Bolton og ekki fengið á okkur mark - á meðan Arsenal getur ekki unnið þar. Besti fótboltinn er fótbolti sem lagaður er að aðstæðum hverju sinni. Chelsea í Meistaradeildinni er ekki sama lið og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Það er ekki nóg að vinna einn leik 6-0 og tapa svo leik sem þú átt að vinna viku síðar. Ég hef spilað leiki með þrjá miðverði og ég hef líka spilað leiki með fimm manna sóknarlínu. Chelsea er sóknarlið sem lagar sig að aðstæðum og maður spilar ekki sömu taktík gegn Bolton og maður spilar gegn Watford. Það er rosalega fínt að spila fallega knattspyrnu þegar maður verður enskur meistari - en það er ekki jafn fallegt ef maður endar í fjórða sæti og tryggir sér ekki sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrr en í síðasta leik riðlakeppninnar," sagði Mourinho og er þar með búinn að gefa tóninn fyrir leikinn á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×