Innlent

Slaka verður á sönnunarkröfum vegna bótakrafna í samráðsmálum

MYND/KER

Slaka verður á sönnunarkröfum í málum eins og máli Sigurðar Hreinssonar á hendur Keri að mati Neytendasamtakanna, en Ker var í gær sýknað af kröfum Sigurðar vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna samráðs olíufélaganna á árunum 1995-2001. Sigurður var einn þeirra fjölmörgu sem sneru sér til Neytendasamtakanna þegar upp komst um olíusamráðið og ákváðu samtökin í framhaldi af því að greiða kostnað vegna málsóknar hans.

Fram kemur á heimasíðu samtakanna að lagabreytingar sé þörf og vísað til þess að í dómnum hafi hluta krafnanna verið vísað frá með þeim rökstuðningi að stefnandi hefði getað aflað sér mats til stuðnings kröfum sínum. Neytendasamtökin segja ljóst að mat hagfræðinga á svona flóknu máli hefði kostað óhemju mikla fjármuni og ekki fyrir einstaklinga að leggja út í og reyndar ekki fyrir samtök með takmarkaða fjármuni á milli handanna.

Neytendasamtökin segja dóminn mikið áfall fyrir neytendur enda hafi fjölmargar rannsóknir sýnt að samráð fyrirtækja leiði til hækkaðs verðs og þar með stórfellds tjóns fyrir neytendur.

Þau benda á að gær, sama dag og dómurinn féll, hafi komið út skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar sem ber nafnið „Consumers' right of action in antitrust cases". Í henni sé meðal annars fjallað um breytingar sem nauðsynlegt sé að gera til að auðvelda neytendum að sækja bætur vegna samkeppnislagabrota. „Neytendasamtökin mælast til þess að stjórnvöld skoði þessa skýrslu gaumgæfilega, sérstaklega með hliðsjón af olíumálinu og geri viðeigandi breytingar á löggjöf svo að forðast megi að sambærilega staða komi upp aftur," segir á heimasíðunni

 

Stjórn Neytendasamtakanna mun hittast síðdegis og ræða við Steinar Guðgeirsson sem flutti málið fyrir héraðsdómi, um hugsanlegt framhald málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×