Enski boltinn

West Ham lá heima fyrir Wigan

Eggert og Björgólfur veifa hér til áhorfenda á Upton Park, en segja má að Björgólfur hafi farið fýluferð á sinn fyrsta leik með West Ham
Eggert og Björgólfur veifa hér til áhorfenda á Upton Park, en segja má að Björgólfur hafi farið fýluferð á sinn fyrsta leik með West Ham NordicPhotos/GettyImages

Tveir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Björgólfur Guðmundsson sat við hlið Eggerts Magnússonar í heiðursstúku West Ham í kvöld en þurfti að horfa upp á sína menn tapa 2-0 fyrir Wigan. Þá vann Newcastle afar mikilvægan sigur á Reading 3-2 í æsilegum leik.

Leikmenn West Ham fengu fjölda færa til að skora gegn Wigan og var Argentínumaðurinn Carlos Tevez sérstaklega óheppinn að opna ekki markareikning sinn hjá liðinu. Sjálfsmark frá Jonathan Spector og þrumuskot frá David Cotterill tryggðu hinsvegar Wigan góðan sigur.

Mikið fjör var í leik Newcastle og Reading á St. James´Park. Sibierski kom heimamönnum yfir í leiknum, en James Harper skoraði tvö mörk með skömmu millibili fyrir lok fyrri hálfleiks. Obafemi Martins jafnaði fyrir Newcastle úr vafasamri vítaspyrnu á 57. mínútu þar sem hinn einstaki Rob Styles dómari var í aðalhlutverki. Það var svo hinn magnaði Emre sem tryggði Newcastle afar mikilvæg þrjú stig með þrumufleyg sínum skömmu fyrir leikslok.

Reading er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og Wigan lyfti sér í 11. sætið með sigrinum í kvöld og á leik til góða. Newcastle er komið í 15. sæti deildarinnar eftir sigur kvöldsins og West Ham er í 18. og þriðja neðsta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×