Enski boltinn

Hvað er í gangi á milli Wenger og Henry?

Samband Thierry Henri og Arsene Wenger virðist ekki vera eins og það á að sér að vera þessa dagana.
Samband Thierry Henri og Arsene Wenger virðist ekki vera eins og það á að sér að vera þessa dagana. MYND/Getty Images

Það ríkir undarlegt ástand í herbúðum Arsenal um þessar mundir og orðrómurinn um ósætti milli fyrirliðans Thierry Henry og stjórans Arsene Wenger fer vaxandi. Wenger hefur nú gefið í skyn að Henry muni ekki spila meira á árinu, þrátt fyrir að hann sé heill heilsu, og að hann muni ekki koma neinn leikmann í janúar.

Henry hafði lýst því yfir fyrir helgi að hann væri leikfær og klár í slaginn gegn Tottenham í leiknum sem Arsenal vann 3-0 í gær. Hins vegar var Henry ekki í hópnum og var það ákvörðun Arsene Wenger að skilja fyrirliða sinn eftir utan hóps. Franski þjálfarinn sagðist einfaldlega ekki hafa viljað taka neina áhættu.

Í dag er annað hljóð komið í skrokkinn hjá Wenger og svo virðist sem að stjórinn sé ósáttur með framlag Henry það sem af er leiktíð. "Það er erfitt fyrir mig að tjá mig um þetta mál þar sem ég vil fyrst setjast niður með Henry og segja honum hvers er vænst af honum þegar hann snýr aftur á völlinn," sagði Wenger.

"Ég er ekki að segja að hann sé ánægður eða óánægður, aðeins að hann er ekki tilbúin að spila. Hann er þreyttur og þarf tíma til að jafna sig. Hann getur aukinheldur ekki búist við því að hann gangi strax aftur inn í byrjunarliðið," sagði Wenger jafnframt og bætti við að hann væri að velta því fyrir sér að láta Henry ekki spila aftur fyrr en í næsta mánuði.

"Ég hef sagt það áður og segi það einu sinni enn: Þetta er ekki eins manns lið," sagði Wenger ákveðinn.

Wenger tjáði sig jafnframt um ummæli Henry frá því í gær þar sem hann skoraði á stjóra sinn að auka breiddina í leikmannahópnum með því að kaupa leikmenn í janúar. Spurður út í þau ummæli sagði Wenger: "Ég mun ekki kaupa neinn. Við spilum út þessa leiktíð með þá leikmenn sem við höfum í dag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×