Innlent

Aðstoð við Afgana verður aukin

Íslensk stjórnvöld hyggjast auka framlög til endurreisnar- og þróunarverkefna í Afganistan, auk þess að taka þátt í flutningum fyrir þau aðildarríki NATO sem hafa liðsafla í sunnanverðu landinu. Þessu lýsti Geir H. Haarde forsætisráðherra yfir á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í dag.

Að venju var margt til umræðu á leiðtogafundi NATO sem að þessu sinni var haldinn í Ríga í Lettlandi. Stækkunarmál bar nokkuð á góma og auk þess var Serbíu og Bosníu boðin aðild að undirbúningsáætlun bandalagsins. Eitt mál hefur þó öðru fremur einkennt fundinn í Ríga, ástandið í Afganistan.

Á fundinum í morgun greindi Geir Haarde forsætisráðherra frá því að íslensk stjórnvöld myndu auka framlög til endurreisnar- og þróunarverkefna í Afganistan, auk þess sem loftflutningum í þágu þeirra ríkja sem hafa herlið í suðurhluta landsins verði haldið áfram. 32.000 NATO-hermenn eru nú í Afganistan og er óhætt að segja að þeir hafi staðið í ströngu, sérstaklega í suðrinu. Raunar var ágreiningur um verksvið þeirra á fundinum en Bandaríkjamenn hafa knúið á um að fleiri ríki heimili að hermenn sínir taki þátt aðgerðum í þessum róstusama landshluta. Danir og Spánverjar eru á meðal þeirra sem sinnt hafa þessu kalli en Frakkar og Þjóðverjar ætla ekki að heimila slíkt nema í neyðartilfellum.

Geir segir að annað hvort verði flugvélar á vegum ríkisstjórnarinnar sendar til Afganistan eða fjármunir lagðir í flug sem aðrir muni svo sjá um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×