Enski boltinn

Börn sitja í fangelsi fyrir að horfa á fótbolta í sjónvarpi

Það er glæpur að horfa á enska boltann í Afríkuríkinu Sómalíu þar sem Islamskir öfgamenn stýra nú hluta landsins með harðri hendi
Það er glæpur að horfa á enska boltann í Afríkuríkinu Sómalíu þar sem Islamskir öfgamenn stýra nú hluta landsins með harðri hendi NordicPhotos/GettyImages

Mikil mildi þykir að enginn skyldi slasast í gær þegar löggæslumenn stjórnvalda í Sómalíu réðust inn í kvikmyndahús þar sem 150 manns fylgdust með leik Manchester United og Chelsea. Íslamskir ráðamenn í landinu hafa fordæmt allt íþróttaáhorf í sjónvarpi og líta á menn sem horfa á fótbolta sem glæpamenn.

Vitni að atburðinum segja að löggæslumenn hafi skotið af byssum sínum yfir höfðum áhorfenda í kvikmyndahúsinu sem sumir hverjir voru allt niður í 10 ára gömul börn. Fólkið lagði strax á flótta, en 25 voru handteknir og var hárið rakað af höfði þeirra.

"Nú þegar hinir vondu íþróttaáhugamenn eru komnir á bak við lás og slá, munu þeir dúsa þar þangað til þeim hefur verið kenndar góðar lexíur og menning Islam," sagði talsmaður stjórnvalda í landinu sem lagt hafa undir sig suður- og miðhluta landsins - þar sem óstjórn hefur ríkt undanfarið.

Nokkrir af þeim sem handteknir voru eru sagðir vera börn, jafnvel yngri en tíu ára gömul, en þeim hefur ekki verið sleppt úr haldi fyrir að "misbjóða lögum Islam" eins og sagði í yfirlýsingunni. Aðeins útvaldir karlmenn mega taka þátt í íþróttaviðburðum í Sómalíu og unnið er að því að banna allt áhorf á íþróttaviðburði í sjónvarpi í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×