Fótbolti

Eiður á skotskónum í frábærum knattspyrnuleik

Eiður Smári fagnar marki sínu á Nou Camp í kvöld
Eiður Smári fagnar marki sínu á Nou Camp í kvöld AFP

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði eitt mark og fiskaði vítaspyrnu þegar Barcelona lagði Villarreal 4-0 í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Það var hinsvegar snillingurinn Ronaldinho sem stal senunni eins og svo oft áður, en hann skoraði tvö marka Barca og það síðara var hreint út sagt stórkostlegt.

Barcelona bauð upp á frábæra sóknarknattspyrnu í leiknum sem sýndur var beint á Sýn í lýsingu Arnars Björnssonar. Eiður Smári var í sviðsljósinu þegar hann fiskaði vafasama vítaspyrnu og úr henni skoraði Ronaldinho fyrsta mark Barcelona. Eiður kom Barcelona svo sjálfur í 2-0 í síðari hálfleik þegar hann skallaði inn fyrirgjöf Giuly og Iniesta skoraði þriðja markið. Þá var aftur komið að hinum ótrúlega Ronaldinho, sem skömmu fyrir leikslok fékk fyrirgjöf af kantinum, tók hana niður á kassann og sneri sér við í loftinu áður en hann hamraði knöttinn í netið með glæsilegri hjólhestaspyrnu.

Áhorfendur á Nou Camp risu úr sætum og veifuðu hvítum klútum til að hylla kappann og meira að segja hinn dagfarsprúði Frank Rijkaard, þjálfari Barcelona, reis úr sæti og fagnaði tilþrifum Brasilíumannsins sem skildu Arnar Björnsson eftir hásan í lýsingu sinni. Það má því með sanni segja að enginn hafi verið svikinn af þessum frábæra leik í spænska boltanum. Barcelona er komið með fjögurra stiga forskot á Sevilla á toppnum eftir sigurinn, en Sevilla á leik til góða gegn Espanyol á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×