Innlent

Sigurerni sleppt á föstudag

Örninn Sigurörn hefur dvalið í góðu yfirlæti í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum undanfarna mánuði.
Örninn Sigurörn hefur dvalið í góðu yfirlæti í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum undanfarna mánuði. MYND/Stefán

Stefnt er að því að sleppa erninum Sigurerni sem dvalið hefur í Fjölskyldu og húsdýragarðinum undanfarna mánuði nærri Grundarfirði á föstudag. Örninn komst í fréttirnar í júní síðastliðnum þegar honum var bjargað eftir að hann hafði steypst ofan í lón nærri Grundarfirði.

Það var Sigurbjörg S. Pétursdóttir, ung stúlka úr Grundarfirði, sem það gerði en í ljós kom að örninn var mikið grútarblautur og einhverra hluta vegna vantaði á hann allar stélfjaðrirnar og því ósjálfbjarga. Eftir að fuglinn hafði verið þveginn nokkrum sinnum var hann settur út í stórt fuglabúr í Húsdýragarðinum þar sem hann hefur dvalið síðustu 5 mánuði.

Fram kemur í tilkynningu frá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum að örninn hafi nú náð fullum styrk og sé tilbúinn í lífsbaráttuna að nýju. Þar sem veðurspá er hagstæð fyrir helgina er stefnt að því að sleppa Sigurerni með Kirkjufellið fyrir augunum enda þekkir hann það vel. Mun það falla bjargvættinum, Sigurbjörgu S. Pétursdóttur, í skaut að kveðja Sigurörn með því veita honum frelsi að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×