Innlent

Allt að 66 prósenta verðmunur á smurþjónustu

MYND/Pjetur

Allt að sextíu og sex prósenta verðmunur reyndist á smurþjónustu fyrir bíla í könnun sem Alþýðusamband Íslands gerði um síðustu mánaðamót. Verð var kannað hjá 17 þjónustuaðilum á smurningu á þremur stærðum bíla, fólksbíl, jepplingi og stærri jeppa. Fram kemur á heimasíðu ASÍ að Vélaverkstæði Hjalta við Melabraut í Hafnarfirði hafi reynst ódýrast í öllum flokkum. Þar kostaði smurning fyrir fólksbíl frá 1.992 krónum en dýrust var hún hjá Smurstöðinni Fosshálsi eða 3.310 krónur. Þar munar því ríflega 1300 krónum.

 

Þjónusta fyrir jeppling var ódýrust hjá Vélaverkstæði Hjalta (2.378 krónur) en dýrust hjá Gúmmívinnustofunni Réttarhálsi (3.992 krónur) sem er rúmlega 1.600 króna verðmunur eða 67 prósent.

Hins vegar reyndist verðumunurinn mestur á á þjónustu við stóra jeppa. Hjá Vélaverkstæði Hjalta kostaði smurning á stóran jeppa 2.689 krónur en hún var dýrust hjá Smurstöðinni Fosshálsi og Smurstöðinni Stórahjalla 2 í Kópavogi, 4.750 krónur. Verðmunurinn nam því 77 prósentum.

Verðkönnunin náði aðeins til þjónustu smurstöðvanna og voru engin efni innifalin í verðinu. Þrjár smurstöðvar neituðu þátttöku í verðkönnuninni: Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur Bæjarflöt 13, Smur- og dekkjaþjónusta Breiðholts, Jafnaseli 6 og Hjólbarða- og smurþjónustan Klöpp Vegmúla 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×