Handbolti

Naumur sigur Akureyri á Fylki

Akureyri komst upp fyrir Fylki og í 3. sæti DHL-deildar karla í handbolta með því að sigra Árbæjarliðið á heimavelli sínum í kvöld, 30-27. Akureyri er nú komið með 5 stig eftir fjóra leiki en Fylkir er með sama stigafjölda eftir fimm leiki.

Eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik, 13-16, settu heimamenn í Akureyri í fluggírinn í síðari hálfleik og um miðbik hálfleiksins höfðu þeir náð að jafna leikinn í 24-24. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi en á endanum voru það heimamenn, studdir áfram af fjölmörgum áhorfendum, sem höfðu betur.

Leikurinn var mjög góð skemmtun, bauð upp á fína tilburði í vörn og sókn hjá báðum liðum. Þáttur markvarðarins Hreiðars Guðmundssonar vóg þungt fyrir Akureyri en hann varði stærstan hluta 13 skota sinna í síðari hálfleiknum. Hlynur Morthens var alls ekki síðri í hinu markinu, með alls 20 skot varin í leiknum.

Atkvæðamestur heimamanna var Magnús Stefánsson með sjö mörk en Goran Gucis,  Andri Snær Stefánsson og Ásbjörn Friðriksson skoruðu allir sex mörk. Hjá Fylki var Vladimir Duric langmarkahæstur með 11 mörk.

Valsmenn sitja einir á toppi DHL-deildarinnar með 8 stig en HK er í 2. sæti með 7 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×