Fótbolti

Barcelona hirti öll verðlaunin

Viðurkenningin í dag er enn ein rósin í hnappagat Ronaldinho.
Viðurkenningin í dag er enn ein rósin í hnappagat Ronaldinho. Getty Images

Ronaldinho var valinn besti leikmaður og Lionel Messi besti ungi leikmaðurinn þegar úrslit hinna árlegu FIFPro verðlauna voru gerð kunn í dag. Aukinheldur hlaut Samuel Eto´o, einnig leikmaður Barcelona, sérstök heiðursverðlaun sem veitt eru knattspyrnumanni sem hefur unnið framúrskarandi starf í þágu íþróttarinnar.

Það eru 43 þúsund atvinnumenn í fótbolta sem hafa atkvæðarétt í kjörinu en þetta er annað árið í röð sem Ronaldinho hreppur hnossið. Hann leiddi lið Barcelona til Spánar- og Evrópumeistaratitilsins á síðasta tímabili og er afar vel að titlinum kominn.

"Þetta er gríðarlegur heiður og viðurkenning sem segir manni að maður er að gera eitthvað rétt," sagði auðmjúkur Ronaldinho þegar hann tók á móti verðlaununum sínum nú síðdegis.

Eto´o fékk hin svokölluðu Merit-verðlaun sem veitt eru knattspyrnumanni sem hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu íþróttarinnar, en Eto´o hefur unnið markvisst að uppbyggingu knattspyrnunnar í Afríku og barist ötullega að því að útrýma kynþáttafordómum úr leiknum.

Einnig var tilkynnt um FIFPro-lið ársins þar sem heimsmeistaralið Ítala á fjóra fulltrúa. Liðið samanstendur af eftirtöldum leikmönnum:

Gianluigi Buffon, Fabio Cannavaro, Gianluca Zambrotta, Andrea Pirlo, Zinedine Zidane, Thierry Henry, Lilian Thuram, John Terry, Ronaldinho, Samuel Eto'o og Kaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×