Innlent

Biðlistar eftir hjúkrunarplássum nánast hverfa 2010

Biðlistar eftir hjúkrunarrýmum nánast hverfa þegar þau 174 pláss sem heilbrigðisráðherra kynnti í dag verða tekin í notkun. Biðlistar hafa á undanförnum sex mánuðum styst um 20%.

Heilbrigðisráðherra kynnti á blaðamannafundi í dag að 174 ný hjúkrunarrými yrðu byggð á næstu fjórum árum - til viðbótar við þau 200 sem á að byggja í Reykjavík. "Við röðum þessum rýmum upp eftir þörfinni," segir Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra.

Meirihlutinn eða sextíu og fimm prósent fara á höfuðborgarsvæðið, 44 í Kópavog á nýtt hjúkrunarheimili í Þingahverfi við Elliðavatn, 20 í Mosfellsbæ - en í dag er ekkert hjúkrunarrými í Mosfellsbæ - 30 fara í Hafnarfjörð og 20 í Garðabæ. Sjúkrahús Suðurlands á Selfossi fær 20 rými, 30 fara í Reykjanesbæ og 10 í Ísafjarðarbæ. Siv segir að líklega takist að eyða biðlistum með þessari uppbyggingu.

Á sama tíma boðar ráðherra breyttar áherslur í öldrunarþjónustu og vilja sjá lægra hlutfall aldraðra inni á stofnunum en nú eru um 9%prósent 65 ára og eldri inni á stofnunum hér sem er allt að þrisvar sinnum fleiri en í Danmörku. Um leið verður heimahjúkrun aukin svo fólk geti búið lengur heima hjá sér. Og allt kostar þetta peninga. "Þetta er um 1,3 milljarðar sem við tökum á fjárlögum á næstu árum, þá kemur fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra og hluti kemur frá sveitarfélögunum. Þannig að byggingarkostnaður á rýmunum eru rúmir 3 milljarðar."

Við þetta bætist rekstrarkostnaður en um fimm milljónir kosta á ári að reka hvert hjúkrunarpláss. Og til að fólk geti verið lengur heima verða framlög til heimahjúkrunar hækkuð úr 540 milljónum í 1,4 milljarða á næstu þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×