Innlent

KB Banki færir Krabbameinsfélagi Íslands nýtt tæki til greiningar á brjóstakrabbameini

Í dag færði KB banki Krabbameinsfélagi Íslands andvirði nýs stafræns röntgenmyndatækis, til leitar að brjóstakrabbameini, að gjöf. Nýrri tækni er ætlað að leysa eldri röntgenmyndabúnað af hólmi og gera forvarnarstarf vegna brjóstakrabbameins kvenna auðveldara og árangursríkara. Með nýja tækinu er meðal annars unnt að greina lítil æxli af meiri nákvæmni en fyrr og gagnast þessi nýja tækni sérstaklega vel við leit í brjóstum yngri kvenna og kvenna með þéttan brjóstavef. Geislun við myndatökuna minnkar til muna og úrvinnsla og samanburður gagna verður þægilegri en fyrr.

Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands þarf fimm ný tæki af þessari gerð til þess að leysa eldri búnað sinn af hólmi. Þrjú þeirra verða staðsett á leitarstöðinni í Reykjavík, eitt á Akureyri og eitt fartæki verður notað til þess að gefa konum á landsbyggðinni aðgang að reglubundinni skoðun. Hvert tæki kostar um 40 milljónir króna og er treyst á framlög velunnara Krabbameinsfélags Íslands til þess að standa straum af þeim kostnaði.

Ingólfur Helgason, forstjóri KB banka, afhenti þessa gjöf á árlegum starfsdegi bankans. Við gjöfinni tóku þau Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands og Baldur F. Sigfússon, yfirlæknir á röntgendeild leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×