Innlent

Vanhirtir hestar í Dalabyggð

Hestarnir á þessari mynd eru ekki þeir sem fjallað er um í fréttinni.
Hestarnir á þessari mynd eru ekki þeir sem fjallað er um í fréttinni. MYND/Heiða Helgadóttir

Héraðsdýralæknir og búfjáreftirlitsmaður Dalabyggðar segja að hross gangi eftirlits- og heylaus á bæ í Dalabyggð. Þeir segja eigandur hrossanna, sem ekki eru búsettir í sveitarfélaginu, ekki hafa sinnt ítrekuðum beiðnum þeirra um betri umhirðu.

Á Vesturlandsvefnum Skessuhorn segir að fyrrnefndir embættismenn hafi ritað sveitarstjórn Dalabyggðar bréf vegna þessa máls. Í bréfinu segir að á jörðinni Lækjarskógi, sem hefur verið í eyði um nokkurt skeið, gangi 15-20 hrossa stóð eftirlitslaust, skjól sé ekkert og auk þess hafi ekki verið heyjað á jörðinni í sumar og því sé nú heylaust á staðnum.

Í bréfinu segir einnig að margoft hafi verið haft samband við eigendur hrossanna og þeir hvattir til þess að bæta úr þessu, en þeir hafi engu svarað og ekkert gert. Hrossin séu nú aflögð og sérstaklega séu tryppi horuð.

Bréfritarar óska eftir því við sveitarstjórn að hún beiti sér í málinu og tryggi að hrossunum verði séð fyrir sómasamlegu fóðri og húsaskjóli í vetur „eða verði ella fjarlægð af jörðinni og þau annað hvort seld hæstbjóðanda eða komið í sláturhús".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×