Innlent

Vöruskiptahalli minnkar milli mánaða

Frá Sundahöfn.
Frá Sundahöfn. Mynd/GVA
Vöruskipti voru neikvæð um 7,6 milljarða krónur í september sem er 4,4 milljörðum krónum minna en á sama tíma í fyrra, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar.

Vörur voru fluttar út fyrir 22,3 milljarða krónur í mánuðinum en inn fyrir 29,9 milljarða krónur.

Á fyrstu níu mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 173,2 milljarða krónur en inn fyrir 275,4 milljarða króna en það merkir að vöruskipti við útlönd, reiknað á fob verðmæti, voru óhagstæð um 102,2 milljarða krónur. Þetta er nokkru meira en á sama tíma í fyrra þegar vöruskipti voru neikvæð um 75,2 milljarða krónur á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 27 milljörðum króna lakari nú en á sama tíma í fyrra.

Sjávarafurðir voru 54,5 prósent alls útflutnings á fyrstu níu mánuðum ársins og jókst verðmæti þeirra um 3,4 prósent á milli ára. Hlutur iðnaðarvara nama 38,4 prósentum og jókst verðmæti þeirra um 21,7 prósent aðallega vegna hækkunar álverðs.

Verðmæti vöruinnflutnings á sama tíma jókst um 16 prósent á milli ára og nam 38 milljörðum króna. Rúman helming aukningarinnar má rekja til aukins innflutnings á fjárfestingarvöru sem jókst um 40,1 prósent.

Hagstofa Íslands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×