Innlent

KB banki borgar 7 milljarða í skatta

Kaupþing banki greiðir nú í fyrsta skipti meira í opinber gjöld en Fjársýsla ríkisins. Bankinn greiðir langhæstu opinberu gjöldin á þessu ári - nærri sjö milljarða króna, rúmum fimm milljörðum meira en í fyrra.

Tekjuskattur lögaðila hefur hækkað um 46% frá síðasta ári.

Álagning lögaðila fyrir síðasta tekjuár liggur nú fyrir en lögaðilar eru allir þeir sem borga opinber gjöld aðrir en einstaklingar. Alls nemur álagningin tæpum 74 milljörðum króna. KB banki trónir nú í efsta sæti og fer upp fyrir Fjársýslu ríkisins sem greiðir 5,8 milljarða og í þriðja sæti er launaafgreiðsla fjársýslunnar með 4,5 milljarða. Þrír stærstu bankar landsins eru í fimm efstu sætum yfir greiðendur í Reykjavík ásamt fjársýslunni. Í fyrra greiddu þessir þrír bankar samtals um fimm milljarða króna en reiða nú fram um 12,4 milljarða, þar af greiðir Landsbankinn 3,6 en Íslandsbanki 1,8.

Reykjavíkurborg er komin niður í 6. sæti með 1,2 milljarða, en Kópavogsbær er hins vegar hæsti greiðandi í Reykjanesumdæmi með röskar 300 milljónir í opinber gjöld, næst kemur Toyotaumboðið, þá fjármáladeild Varnarliðsins í 3. sæti, Hafnarfjarðarkaupstaður í því fjórða, þá Stálskip, Þorbjörn Fiskanes, en Alcan eða álverið í Straumsvík er í áttunda sæti. Fimmtán hæstu greiðendur á Reykjanesi eru talsvert innan við að vera hálfdrættingar á við KB banka einan í Reykjavík.

Athygli vekur að tekjuskattur fyrirtækja hefur hækkað um 11 milljarða eða 46% frá síðasta ári.

Þá vekur líka athygli að Ríkið borgar 5,2 milljarða í fjármagnstekjuskatt sem er vegna sölunnar á Símanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×