Innlent

Smábörn verða ekki bólusett fyrir flensu

Ekki stendur til að bólusetja smábörn hér á landi gegn inflúensu en stór bandarísk rannsókn sýnir að þeim verður ekki meint af því.

Margir foreldrar þekkja það hve lítil börn eru útsett fyrir flensum þegar þau byrja í daggæslu í kringum ársaldurinn með tilheyrandi veikindum og vinnutapi. Nú hefur ný bandarísk rannsókn sýnt fram á að börnum á aldrinum 6 til 23 mánaða verður ekki meint af bólusetningu gegn inflúensu. Rannsóknin er sú stærsta sinnar tegundar og náði til 45.000 barna. Tvö ár eru síðan bandarísk heilbrigðisyfirvöld mæltu með því að börn á þessum aldri yrðu bólusett árlega gegn hinum skæðu flensum en það stendur ekki til hér á landi. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir ekkert mæla gegn bólusetningu annað en kostnaður. "Við höfum metið það svo að við viljum frekar einbeita okkur að áhættuhópum, fólki sem er eldra en sextíu ára og eru veikir fyrir og teljum mjög mikilvægt að þeir séu bólusettir."

Haraldur telur að það geti kostað um fjórar til fimm milljónir króna á ári að bólusetja smábörn gegn flensu. En hvað með þá þjóðtrú að börnum sé hollt að fá pestir til að styrkja ónæmiskerfið? "Það er alls ekki rétt að maður þurfi að fá sjúkdóminn sjálfan til að fá góða vörn. Bólusetningarnar skila því líka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×