Innlent

Kæra útgáfu framkvæmdaleyfis á Stóra-Skarðsmýrarfjalli

Landvernd hefur, ásamt Eldhestum og Birni Pálssyni, kært útgáfu sveitarfélagsins Ölfuss framkvæmdaleyfi á Stóra-Skarðsmýrarfjalli. Vilja þessir aðilar að leyfið verði ógilt þar sem útgáfan samræmist ekki ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.

Fram kemur á vef Landverndar að sveitarstjórn Ölfuss hafi gefið út bráðabirgðaframkvæmdaleyfi á fjallinu og það nýtt til að ráðast í gerð vegar á fjallinu.

Hins vegar sé ekki til neitt sem heiti bráðabirgðaframkvæmdaleyfi en til framkvæmdanna hafi þurft framkvæmdaleyfi. Skipulagsstofnun hafi í úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar Hellisheiðarvirkjunar veitt sveitarfélaginu ítarlegar leiðbeinginga um hvernig standa skuli að útgáfu framkvæmdaleyfa en til þess að veita það þurfi að breyta aðalskipulagi og deiliskipulagi. Þá þurfi áætlun um efnistöku að liggja fyrri áður en heimilt er að gefa út framkvæmdaleyfi.

Sveitarfélagið Ölfuss hafi ekki gert þetta og segir Landvernd mikilvægt að fá skorið úr því hvort sveitarfélög geti endurskilgreint hugtök laganna og þannig komið í veg fyrir lögformleg kynningarferli þar sem íbúar, hagsmunaaðilar og frjáls félagasamtök eigi rétt á aðkomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×