Innlent

Hyggjast koma á fót Tyrkjaránssetri

MYND/E.Ól

Ætlunin er að koma á fót Tyrkjaránssetri í Vestmannaeyjum og hefur þegar verið stofnað félag sem ætlað er að reka það. Í tilkynningu frá aðstandendum setursins segir að því sé ætlað að verða miðstöð rannsókna og fræðslu um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum árið 1627 og er liður í menningartengdri ferðaþjónustu í Eyjum.

Öllum sem áhuga hafa er gefinn kostur á að gerast stofnfélagar á næstu vikum, en mikill áhugi er á stofnun félagsins í Eyjum. Hugmyndin um setrið kviknaði eftir sýningu Leikfélags Vestmannaeyja um Tyrkjaránið sumarið 2004 sem að sögn aðstandenda var vel sótt. Setrinu er ætlaður staður í Dalabúinu sem er bóndabýli í suðurjaðri Vestmannaeyja sem ekki er lengur í ábúð.

Á næsta ári verða 380 ár liðin frá Tyrkjaráninu og er af því tilefni stefnt að fjölbreyttri dagskrá næsta sumar þar sem Tyrkjaránssetrið mun gegna lykilhlutverki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×